Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1554, 130. löggjafarþing 467. mál: Siglingastofnun Íslands (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka).
Lög nr. 39 11. maí 2004.

Lög um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Að annast framkvæmd laga um vitamál og laga um köfun.
  2. Við 1. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Að annast framkvæmd laga um siglingavernd.
    2. Að birta á heimasíðu sinni íslenska og/eða enska útgáfu alþjóðasamninga á sviði siglinga sem Ísland er aðili að. Jafnframt skal stofnunin birta á heimasíðu sinni enska útgáfu af viðaukum og kóðum sem þeim samningum fylgja og öðrum samningum sem varða flutning á hættulegum efnum með skipum og hafa almennt gildi en birtast ekki í Stjórnartíðindum. Viðaukar þessir og kóðar skulu uppfærðir jafnóðum og breytingar verða á þeim. Þeim sem þess óska skal gefinn kostur á að fá sendar tilkynningar frá Siglingastofnun þegar birtir eru nýir samningar, kóðar eða viðaukar eða þeim breytt á heimasíðunni.
  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Siglingastofnun Íslands aflar sér tekna á eftirfarandi hátt:
    1. Með innheimtu gjalda sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
    2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu á starfssviði stofnunarinnar, þ.m.t. útgáfu starfsleyfa og atvinnuskírteina og veitingu undanþágna til starfa á skipum.
    3. Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna.

         Gjöld skv. 1.–3. tölul. 5. mgr. skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal gjaldtaka ekki vera meiri en nemur þeim kostnaði. Kostnaður við starfrækslu Siglingastofnunar Íslands greiðist að öðru leyti af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2004.